Skagfirskir gæðaostar

Goðdalir eru heitið á gæðaostunum, Feyki, eldri bróður hans Feyki 24+, Gretti, Reyki og Vesturós. Hver um sig kinkar kolli til Skagafjarðar á sinn einstaka hátt.

Goðdalir er hið forna heiti Skagafjarðardala þar sem jökulfljótin hafa fossað um gljúfrin frá örófi alda og borið fram efni í blómlega akra og bragðmikinn ost.

Í Landnámu segir að Eiríkur Hróaldsson hafi numið Goðdali alla. Þar virðist átt við landið sem nær yfir dalina þrjá: Vesturdal, Svartárdal og Austurdal.

Bragðmikill
& sætur

Feykir

Feykir er bragðmikill ostur sem hefur þroskast í 12 mánuði eða lengur. Kringlótt lögun og vaxhjúpur eiga þátt í þroskun ostsins og gefa honum áferð og bragð þar sem kristallamyndun og sætukeimur mætast á einstakan hátt.

Feykir elskar bragðmikið kjöt, t.d. grafið eða reykt.

Hann finnur sig líka með fíkjum, plómum og hnetum.

Feykir er eðalviðbót við pastarétti og ofan á carpaccio og salöt.

Þegar Feykis er notið með ávaxtaríkum vínum, til dæmis Shiraz og Sangiovese, eða góðum IPA bjór, tekur hann á stökk.

Þroskaður
í 24 mánuði

Feykir 24+ er bragðmikill ostur sem hefur fengið að þroskast í 24 mánuði eða lengur. Osturinn er allt í senn stökkur, saltur og sætur en drjúgur þroskunartími gefur honum einstaka áferð og ómótstæðilegt bragð.

 

Sætur og stökkur

Grettir

Grettir er sætur og stökkur ostur sem kemur skemmtilega á óvart. Sérstök geymsluaðferð gefur honum milt og ljúft bragð og flauelsmjúka áferð. Grettir er margslunginn ostur sem erfitt er að standast.

Grettir á best heima með bragðsterku kjötmeti, t.d. parmaskinku og salami.

Grettir hentar einnig vel í allri matargerð.

Hann dregur fram það besta í jarðarberjum, eplum og melónum.

Þegar Grettir og vín hittast vill hann helst sæt Pinot Grigio eða Pinot Noir. Bjór og pilsner henta styrkleikum hans líka vel.

Silkimjúkur
hnetukeimur

Vesturós

Vesturós er margslunginn ostur þar sem sætur og silkimjúkur hnetukeimur mætir villtu og spennandi bragði. Vesturós hefur fengið að þroskast í 10 mánuði hið minnsta sem gefur honum áberandi kristallamyndun og einstaka áferð.

Vesturós finnst stefnumót við IPA bjór einstaklega skemmtilegt. Hann er líka mjög ljúfur með léttari og yngri vínum, s.s. sætu Riesling og Gewürztraminer.

Vesturós passar vel með flestu meðlæti. Elskar allt sem er salt, en prufaðu hann líka með pekanhnetum og hunangi eða jarðarberjum og hindberjum.

Vesturós er afar hentugur í alla matargerð.

Vesturós elskar allt kjöt t.d. rautt eða grafið.

Ljúfur
birkireykjarilmur

Reykir

Reykir er einstakur og spennandi ostur sem búið er að kaldreykja með íslensku birki. Osturinn fær sérstakan lit og áferð við reykinguna til viðbótar við léttan reykjarilminn. Reykir ber keim af kjötmeti og því fylgir einkar kröftugt eftirbragð.

Reykir er á heimavelli með flestu kjöti.

Epli og perur eru honum einkar vinveitt, en ljós hans skín í pizzugerð, með pasta og í kartöflugratíni.

Reykir er eðalviðbót við pastarétti og ofan á carpaccio og salöt.

Reykjarbragðið hentar vínandanum einnig vel og þá helst ávaxtaríkum vínum á borð við Zinfandel og Shiraz.